686FDCS - Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 100 ára
686FDCS - Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 100 ára
Ekki tókst að hlaða framboði á afhendingum
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga var stofnað þann 18. nóvember 1919 og hét þá Félag íslenskra hjúkrunarkvenna. Markmið félagsins var að koma á fót námi í hjúkrun á Íslandi. Engar íslenskar konur voru þá menntaðar í hjúkrun en fyrstu hjúkrunarkonurnar hér á landi voru danskar. Á annan tug kvenna fór erlendis í hjúkrunarnám á árunum 1910-1920. Árið 1931 var Hjúkrunarkvennaskólinn stofnaður en frá árinu 1986 hefur hjúkrunarfræði á Íslandi verið kennd á háskólastigi.
Árið 1960 var nafni félagsins breytt í Hjúkrunarfélag Íslands þar sem fyrstu karlmennirnir höfðu þá lært hjúkrun hér á landi. Starfsheiti þeirra var breytt í hjúkrunarfræðing árið 1975 og er það lögverndað. Sérstakt félag var stofnað fyrir háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga 1978 en 1994 sameinuðust félögin tvö og til varð Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Félagið er bæði fag- og stéttarfélag. Megintilgangur þess er að gæta hagsmuna hjúkrunarfræðinga, stuðla að þróun hjúkrunar og taka þátt í stefnumótun í heilbrigðismálum. Félagsmenn eru tæplega 4000. Frímerkið vísar bæði til núverandi búnings hjúkrunarfræðinga og til eldri búnings Félags íslenskra hjúkrunarkvenna, sem hannaður var samkvæmt þeim línum sem tískan bauð um miðjan þriðja áratuginn.
