610C - Íslensk myndlist V - Borgarlíf - Gunnlaugur Blöndal
610C - Íslensk myndlist V - Borgarlíf - Gunnlaugur Blöndal
Ekki tókst að hlaða framboði á afhendingum
Á árunum 1915-1930 tvöfaldaðist íbúafjöldi Reykjavíkur, var 28.000 í lok tímabilsins. Að mestum hluta var þessi íbúafjölgun til komin vegna fólksflutninga úr sveitum. Á sama tíma minnkaði vægi landbúnaðar í þjóðarframleiðslunni um tæplega 30%, en sjávarútvegur óx hraðbyri. Fyrstu ár kreppunnar, 1929-32, urðu hins vegar til að slá verulega á þessa framþróun og skapa pólitíska og efnahagslega sundrung í þjóðfélaginu, sem ekki linnti fyrr en við hernám Breta. Félagslegar og menningarlegar aðstæður í þessu nýtilkomna íslenska þéttbýli urðu til að breyta áherslum í íslenskri myndlist.
Landslagsmyndum fækkaði stórlega en þess í stað hóf ný kynslóð íslenskra listamanna, mestmegnis borin og barnfædd á mölinni, að takast á við veruleikann sem blasti við þeim á fjórða áratugnum: húsin í bænum, atvinnulífið við höfnina (Gunnlaugur Blöndal), verslunarstarfsemi (Gunnlaugur Scheving), vegavinnuframkvæmdir, en einnig ýmsa áður ókannaða þætti mannlífsins. Sumir þessara listamanna, t.a.m. Jón Engilberts, fjölluðu um stóra opinbera viðburði á borð við mannfagnaði og verkfallsátök, aðrir, t.d. Snorri Arinbjarnar, sögðu frá daglegu amstri alþýðunnar, tómstundum og búksorgum. Þessar myndir, sprottnar upp úr nýjum félagslegum veruleika, urðu síðan kveikja margháttaðra myndlistartilrauna sem áttu eftir að umbreyta ásýnd íslenskrar myndlistar. Þessar umbreytingar má t.d. greina í hafnarmynd Þorvalds Skúlasonar, þar sem form og litir eru farin að lifa sjálfstæðu lífi.
