595C - Íslensk myndlist IV - Nýtt landslag - Guðmundur frá Miðdal
595C - Íslensk myndlist IV - Nýtt landslag - Guðmundur frá Miðdal
Ekki tókst að hlaða framboði á afhendingum
Frá upphafi myndlistarinnar í landinu og allar götur til nútíðar hefur landslagið verið helsta viðfangsefni íslenskra myndlistarmanna. Hins vegar hefur túlkun þess breyst í samræmi við tíðaranda og listviðhorf á landinu á hverjum tíma. Til að mynda voru verk frumherjanna, Þórarins B. Þorlákssonar, Ásgríms Jónssonar, Kjarvals og Jóns Stefánssonar, lituð af bjartsýni og þjóðernisrómantískri ættjarðarást sjálfstæðisbaráttunnar. Veruleikinn sem blasti við fullvalda Íslendingum var hins vegar nokkuð annar en menn höfðu vænst. Á Alþingishátíðinni 1930 horfðu menn fram á kreppuástand, vaxandi atvinnuleysi, hnignun atvinnuveganna og pólitískt sundurlyndi hinnar nýfrjálsu þjóðar, ástand sem ekki tók enda fyrr en í síðari heimstyrjöld.
Þetta uggvænlega ástand endurspeglast með ýmsum hætti í listaverkum nýrrar kynslóðar landslagsmálara. Tært, litríkt og viðmótsþýtt sumarlandið sem birtist í verkum frumherjanna víkur fyrir myndum af drungalegu vetrarlandslagi, brunahrauni og hrjóstrugum öræfum, náttúru sem ekki samræmdist hugmyndum manna um fegurð, og virtist auk þess sett til höfuðs íbúum landsins. Í því ljósi má skoða túlkun Eggerts Laxdal (1897-1951) á „heilögu“ landslagi Þingvalla sem hrikalegri grjóthrúgu, lýsingu Finns Jónssonar (1892-1993) á öræfalandslaginu sem hinstu hvílu villuráfandi manna og dýra, upphafningu Guðmundar frá Miðdal (1895-1963) á eldstöðvum landsins og málverk Sveins Þórarinssonar (1899-1977) af hinni tignarlegu Herðubreið, þar sem fjallið birtist okkur sem ókleift og hrikalegt virki óþekktra afla.
